1. gr.
Félagið heitir FETAR.
2. gr.
Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.
3. gr.
Tilgangur félagsins er að vinna að framþróun ferðaþjónustu þar sem ferðast er um hálendi og láglendi á heilsársgrunni og þeim sérútbúnaði og þjálfun sem tilheyrir þeirri starfsemi. Sem og gæta hagsmuna þeirra rekstraraðila sem eru sérhæfðir og sérútbúnir því sviði, gagnvart stjórnvöldum og öðrum aðilum.
4. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að auka samkennd, fagmennsku og þekkingu félagsmanna og annarra á ferðaþjónustu sem skilgreind er í 3. Gr. Taka þátt í að upplýsa menn um mikilvægi náttúruverndar og góðrar umgengni um landið. Stuðla að því að leyfis- og öryggismál bifreiða og félagsmanna séu í samræmi við lög og reglur.
5. gr.
Aðalfund skal halda fyrir lok febrúar ár hvert og skal boða til hans með að minnst 10 daga fyrirvara með sannanlegum hætti, þar með talið tölvupóstur. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
- Kosning fundarstjóra og fundarritara
- Skýrsla stjórnar lögð fram
- Reikningar lagðir fram til samþykktar
- Lagabreytingar
- Kosning stjórnar
- Kosnir tveir skoðunarmenn reikninga
- Ákvörðun félagsgjalds
- Önnur mál
Stjórn getur boðað til aukaaðalfundar að eigin ósk eða ef krafa um slíkt kemur fram frá 30% félagsmanna. Skal þá boðun fundsins fara fram eins fljótt og hægt er skv. sömu reglum og ef um reglulegan aðalfund væri að ræða. Dagskrá fundarins skal vera sú sama og ef um reglulegan aðalfund væri að ræða auk þess sem geta skal í fundarboði ástæðu aukaaðalfundarins.
6. gr.
Rétt til að ganga í félagið hafa allir þeir sem eiga og/eða reka í atvinnuskyni sérútbúnar torfærubifreiðar.
7. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð 5 félagsmönnum, þ.e. formanni, ritara, gjaldkera og 2 meðstjórnendum. Formaður er kosinn á aðalfundi til eins árs í senn. Að öðru leiti skiptir stjórnin með sér verkum. Stjórnarmenn aðrir en formaður skulu kosnir til tveggja ára í senn, tveir hvert ár. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til funda. Firmaritun félagsins er í höndum formanns.
8. gr.
Starfstímabil stjórnar er milli aðalfunda. Reikningsár félagsins er almanaksárið. Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur í aðalfundi. Félagsmenn teljast þeir einir vera sem greitt hafa félagsgjald síðastliðins starfsárs fyrir aðalfund.
9. gr.
Ákvörðun um félagsgjald næsta starfsárs stjórnar, skal tekin á aðalfundi. Félagsgjöld skulu innheimt árlega.
10. gr.
Stjórn hefur heimild til að ráðstafa innkomnum félagsgjöldum ársins. Ef skuldbinda á félagið umfram tekjur ársins skal liggja fyrir samþykki aðalfundar.
11. gr.
Ákvörðun um slit félags verður tekin á aðalfundi með auknum meirihluta 2/3 hluta atkvæða fundarmanna og renna eignir þess til líknarsamtaka.