Hlutverk gæðastefnu FETAR
Gæðastefna FETAR byggir á gildum og markmiðum landssamtakanna og er ætlað að stuðla að aukinni fagmennsku og ábyrgð innan vébanda þeirra.
Tilgangur
Allir félagar/félög sem aðild eiga að FETAR gangast undir og samþykkja að framfylgja gæðastefnu FETAR í sínum rekstri og þjónustu.
Framtíðarsýn
Að stuðla að auknu samstarfi fyrirtækja í ferðaþjónustu og yfirvalda við að:
- bjóða ferðamönnum, innlendum sem erlendum, fyrsta flokks þjónustu
- standa vörð um þá auðlind sem íslensk náttúra er
- tryggja jafnframt jafnt aðgengi að íslenskri náttúru
- gæta jafnræðis og sanngirni
Siðareglur
- Ávallt skal veita viðskiptavinum faglega, heiðarlega og ábyrga þjónustu.
- Virða skal trúnað og þagmælsku gagnvart viðskiptavinum. Það á t.d. við um myndatökur og opinberar birtingar án samþykkis t.a.m. á samfélagsmiðlum.
- Sýna skal öllum viðskiptavinum sömu virðingu óháð kyni, kynþætti, trúarbrögðum, aldri og persónulegum skoðunum.
- Ávallt skal hafa öryggi viðskiptavina og starfsmanna í fyrirrúmi við framkvæmd þjónustu. Það á t.a.m. við um farartæki, búnað, leiðarval, veðurathuganir o.þ.h.
- Hafa skal í heiðri landslög og reglur í hvívetna.
- Sýna í verki ábyrgð, virðingu og varkárni gagnvart íslenskri náttúru, umhverfi og samfélagi. Það á t.a.m. við um háskalegan akstur sem og akstur utan vega. Aðilar innan FETAR eru eindregið hvattir til að tilkynna viðeigandi yfirvöldum um utanvegaakstur verði þeir hans varir.
- Hafa skal í heiðri hagsmuni og orðstír Íslands sem hágæða dvalarstað þar sem fagmennska, gestrisni og fagleg þjónusta er í fyrirrúmi.
Búnaðarlisti farartækja
Bréfaþurrkur | Startkaplar |
Dekkjaviðgerðasett | Teppi / álteppi |
Dráttaraugu / krókar / krækjur | Tjakkur |
GPS tæki | Tóg |
GSM sími | Vasaljós + aukarafhlöður |
Leiðsögumannakerfi í stærri farartækjum | Vatn |
Loftdæla | Verkfærasett |
Loftmælir | Verkjalyf |
Sjúkrakassi | VHF talstöð |
Skófla |
Eftirfylgni
- Öll aðildarfélög FETAR gangast sjálfkrafa undir siðareglur gæðastefnu þessarar með skráningu í FETAR og skulu kynna hana fyrir starfsmönnum sínum.
- Ef sannanlega er brotið gegn ákvæðum siðareglnanna skal tilkynna það stjórn FETAR sem tekur ákvörðun um hvort veita skuli viðkomandi áminningu. Stjórn FETAR metur það hverju sinni hversu alvarlegt brotið er og hvort aðildarfélagi sé vísað úr landssamtökunum eða hvort veitt sé áminning. Þriðja áminning til sama aðila/félags jafngildir brottvísun úr FETAR í tvö ár hið minnsta. Stjórn FETAR tekur ákvörðun um tímalengd brottvísunar sem byggist á alvarleika brots/brota. Eftir að sá tími er liðinn skal starfandi stjórn FETAR taka ákvörðun um endurumsókn viðkomandi.