Skip to content
FETAR LANDSSAMTÖK
  • Um FETAR
  • Gæðastefna
  • Lög FETAR
  • Stjórnir
  • Félagatal
  • Fundargerðir
  • Hafðu samband

Aðalfundur FETAR 2022

  • May 3, 2022May 3, 2022
  • by svenni2019

Aðalfundur FETAR var haldinn 26. apríl 2022 í húsakynnum Ferðaklúbbsins 4×4 í Síðumúla 31. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf m.a. kosning nýrrar stjórnar og er ný stjórn sem hér segir:

  • Jón Páll Baldvinsson – formaður
  • Kristján G Kristjánsson – gjaldkeri
  • Sveinn Sigurður Kjartansson – ritari
  • Baldvin Jónsson – meðstjórnandi
  • Ársæll Hauksson – meðstjórnandi

Mörg og mikilvæg mál herja á fyrirtæki innan vébanda FETAR sem staðfestir mikilvægi hagsmunagæslu samtakanna á landsvísu.

Engar lagabreytingar voru lagðar fram og félagsgjald var ákveðið óbreytt eða 20.000 kr. á ári. Eftir góðar undirtektir við tillögur um að greiða formanni og stjórn umbun fyrir störf sín ákvað aðalfundurinn að greiða formanni 60.000 kr. á mánuði og aðalmönnum 15.000 kr. á mánuði til reynslu í eitt ár. Mikið álag hefur verið á stjórnarmönnum undanfarin ár vegna ýmissa mjög aðkallandi mála en þó helst áforma um miðhálendisþjóðgarð og takmörkun á ferðafrelsi á hálendinu almennt og mikill tími verið lagður í fundarhöld og skrif.Af öðrum málum má nefna áframhaldandi kolefnajöfnun með gróðursetningu í Hvalfirði og ruslatýnslu/plokk í völdum fjörum sem að er nýtt af nálinni. Stefnt verður að því að framkvæma eldri hugmynd um að prenta FETAR límmiða sem félagsmenn geta sett í farartæki sín. Samstarf við Landsbjörgu er einnig í vinnslu.Ný stjórn var kosin sem hér segir:

Formaður: Jón Baldvinsson
Gjaldkeri: Kristján G Kristjánsson
Ritari: Sveinn Sigurður Kjartansson
Varamenn: Ársæll Hauksson og Baldvin Jónsson

Smelltu hér til að sjá fundargerðina.

Aðalfundur FETAR 2021

  • May 8, 2021December 1, 2021
  • by svenni2019

Aðalfundur FETAR var haldinn 18. mars 2021 í húsakynnum Iceland Luxury Tours í Borgartúni 23. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf m.a. kosning nýrrar stjórnar og er ný stjórn því sem hér segir:

  • Jón Baldvinsson – formaður
  • Kristján G Kristjánsson – gjaldkeri
  • Sveinn Sigurður Kjartansson – ritari
  • Baldvin Jónsson – meðstjórnandi (nýr inn)
  • Hinrik Bjarnason – meðstjórnandi

Að venju eru mörg mál í deiglunni en hæst ber frumvarp umhverfisráðherra Guðmundar Inga um miðhálendisþjóðgarð en stjórn FETAR hefur lagt gríðarlega vinnu í að berjast gegn þeim áformum í samstarfi við aðra hagsmunaaðila, t.a.m. Ferðaklúbbinn 4×4 o.fl. Stjórn FETAR lagði fram harðorða umsögn um málið og átti einnig fjölda funda með ráðamönnum og ráðherrum.

Af öðrum málum má helst nefna kolefnisjöfnun FETAR þar sem FETAR-liðar fóru fylktu liði í Hvalfjörðinn og gróðursettu nokkur hundruð plöntur. Stefnan er að halda því áfram og vonandi skapa þar FETAR-lundinn í grænni framtíð.

Stjórn FETAR tók einnig þátt í að hindra bann á akstri á snjó á stórum svæðum á Fjallabaki sem stóð til að innleiða vegna háhitasvæða. FETAR átti þar enn í góðu samstarfi við Ferðaklúbbinn 4×4 o.fl.

Smelltu hér til að sjá fundargerðina.

Aðalfundur FETAR 2020

  • May 27, 2020May 28, 2020
  • by svenni2019

Aðalfundur FETAR var haldinn 5. mars 2020 í húsakynnum 4×4 í Síðumúla. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf m.a. kosning nýrrar stjórnar en sitjandi stjórn var endurkjörin og er ný stjórn því sem hér segir:

  • Jón Baldvinsson – formaður
  • Kristján G Kristjánsson – gjaldkeri
  • Sveinn Sigurður Kjartansson – ritari
  • Páll Halldór Halldórsson – meðstjórnandi
  • Hinrik Bjarnason – meðstjórnandi

Mörg mál eru í deiglunni og ber þar hæst áform umhverfisráðherra um miðhálendisþjóðgarð, stjórnunar- og verndaráætlun friðlands að Fjallabaki, þrír fundir með ráðherrum, þátttaka í málþingum, samstarf með 4×4 og Útivist, stefnumótun samtakanna, SAF o.fl. Samskipti við opinberar stofnanir voru af meira tagi t.a.m. við Vegagerðina, Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarð, Samgöngustofu, Reykjavíkurborg o.fl. vegna hagsmuna aðildarfélaga FETAR.

Áherslur nýrrar stjórnar verða áfram þær sömu, að kynna starfsemi fyrirtækja sem eru í FETAR og byggja upp ímynd þeirra útávið auk þess að standa vörð um hagsmuni félagsmanna.

Smelltu hér til að sjá fundargerðina.

Aðalfundur FETAR 2019

  • February 28, 2019May 16, 2019
  • by svenni2019

Aðalfundur FETAR var haldinn 26. febrúar s.l. í húsakynnum 4×4 í Síðumúla. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf m.a. kosning nýrrar stjórnar en hana skipa nú:

  • Jón Baldvinsson formaður
  • Kristján G Kristjánsson gjaldkeri
  • Sveinn Sigurður Kjartansson ritari
  • Páll Halldór Halldórsson
  • Hinrik Bjarnason.

Við bjóðum Hinrik Bjarnason sem er nýr stjórnarmeðlimur velkominn í góðan hóp.

Mikill árangur náðist á síðasta tímabili við að kynna starfsemi FETAR fyrir yfirvöldum og stofnunum þeim sem koma helst að málum sem okkur varðar eins og Vegagerðinni, Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarði, Samgöngustofu, Reykjavíkurborg o.fl. Stjórn FETAR átti t.a.m. fund með samgönguráðherra, tók þátt í fundum Reykjavíkurborgar um ferðaþjónust og m.a. akstursbann í miðbænum og skemmst er að minnast þátttöku FETAR í málþingi um utanvegaakstur sem haldið var af Vegagerðinni, Vatnajökulsþjóðgarði, Umhverfisstofnun og Lögreglunni.

Áherslur nýrrar stjórnar verða áfram þær sömu, að kynna starfsemi fyrirtækja sem eru í FETAR og byggja upp ímynd þeirra útávið auk þess að standa vörð um okkar hagsmuni.

Smelltu hér til að sjá fundarferðina.

Aðalfundur FETAR 2018

  • June 6, 2018May 16, 2019
  • by svenni2019

Aðalfundur FETAR var haldinn 17. maí 2018 og má nálgast fundargerðina hér í PDF: Aðalfundur FETAR 17.05.2018.

Á fundinum var kosin ný stjórn og var Jón Páll Baldvinsson kosinn formaður.  Stjórnin hefur skipt með sér verkum að öðru leyti og er skipanin sem hér segir:

  • Jón Páll Baldvinsson – Formaður
  • Kristján G. Kristjánsson – Gjaldkeri
  • Páll Halldór Halldórsson – Meðstjórnandi
  • Sveinn Sigurður Kjartansson – Ritari
  • Vilhjálmur Hjörleifsson – Meðstjórnandi

Smelltu hér til að sjá fundargerðina.

Umsögn FETAR v/akstursbanns í miðborginni

  • April 26, 2017May 16, 2019
  • by svenni2019

FETAR (Félag eigenda torfæruökutækja í atvinnurekstri) eru hagsmunasamtök fyrirtækja sem starfa við ferðaþjónustu á breyttum ferðaþjónustubifreiðum. Í félaginu eru um 50 fyrirtæki með yfir 100 sérútbúnar ferðaþjónustubifreiðar á sínum vegum. Markmið félagsmanna er að geta tekið gesti sína burt frá fjölförnustu ferðamannastöðunum á fáfarnari slóðir, oft inn á hálendi Íslands, til að sýna þeim undur íslenskrar náttúru. Oft er um að ræða dýrar ferðir, enda farartækin dýr og eins og þekkt er liggur mikið íslenskt hugvit og verkþekking á bak við breytingar á bifreiðum á Íslandi.

Í bréfi frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur dagsettu 13. mars sl. koma fram svokallaðar tillögur stýrihóps um akstur hópbifreiða með ferðamenn í miðborginni (Reykjavíkur). Þegar litið er nánar á hinar svokölluðu tillögur kemur fljótt í ljós að frekar er um að ræða tillögur um bann við akstri ferðamanna um miðborg Reykjavíkur, og gjaldtöku, en tillögur um akstur ferðamanna. Virðist því starfsheiti stýrihópsins vera rangnefni, ellegar hann hafi borið illilega af leið í vinnu sinni, fjarlægst erindi sitt og tilgang og í stað þess að fjalla um akstur hópbifreiða með ferðamenn í miðborginni og leysa þau verkefni sem þar við blasa gripið í úrræðaleysi sínu til boða og banna.

Nýir íbúar þurfa að komast til og frá heimili sínu

Engum dylst að Reykjavík hefur notið góðs af vexti ferðaþjónustunnar síðustu ár. Nýir veitingastaðir, hótel og verslanir hafa komið fram á sjónarsviðið sem veita fjölda íbúa Reykjavíkur atvinnu og borginni tekjur. Byggingar og jafnvel borgarhlutar sem áður voru í niðurníslu hafa öðlast nýtt líf. Borgin hefur fyllst af nýjum íbúum, sem stoppa hér stutta stund hver og einn, en borga í raun allra borgarbúa mest fyrir dvöl sína í borginni og neyta annarra borgarbúa mest af þjónustu og veitingum.

Borgaryfirvöld hafa fagnað tekjunum sem frá þessum nýju borgarbúum koma, og leyft byggingu heimila fyrir þá um alla miðborg, en hafa þó ekki gert ráð fyrir því að þessir nýju íbúar þurfi að komast til og frá heimili sínu, með sínar föggur, á meðan á dvöl þeirra stendur. Fullkomið sinnuleysi hefur ríkt hjá borgaryfirvöldum hvað samgöngumál þessara nýju íbúa Reykjavíkur varðar. Ljóst er að lítilli gestrisni er fyrir að fara hjá borgaryfirvöldum hvað þetta varðar, svo lítill að í raun stappar nærri tillitsleysi og dónaskap.

Reykjavík er ekki áfangastaður heldur dvalarstaður

Reykjavík er sérstök borg að því leyti að hvað þessa nýju íbúa varðar, ferðamennina, nærist borgin á þeirri náttúru sem í nágrenni hennar er. Reykjavík á þær tekjur sem hún fær af ferðamönnum náttúrunni utan við hana að þakka. Þótt Reykjavík sé í sjálfu sér indæl borg þá er hún í fæstum tilvikum sá áfangastaður sem ferðamaðurinn sem í henni dvelur kom til að sjá, heldur náttúran sem er í skotfæri frá borgarmörkunum. Langstærsti hluti ferðamanna sem tryggir Reykjavíkurborg tekjur vill fara úr borginni að morgni, og koma til borgarinnar að kvöldi. Reykjavík er því ekki áfangastaður í sjálfu sér heldur dvalarstaður ferðamanna.

Öllum er nauðsynlegt að skilja tilgang sinn og hlutverk í stóra samhengi hlutana og þetta er staðreynd sem flestir aðrir en borgaryfirvöld virðast gera sér grein fyrir. Nauðsynlegt er að tryggja að þessir íbúar Reykjavíkur komist til og frá heimilum sínum á sem auðveldastan máta, líkt og aðrir borgarbúar. Það fer fjarri því að svo hafi verið gert. Hótel og gististaðir hafa verið heimilaðir og byggðir án þess að yfirhöfuð sé gert ráð fyrir að íbúar þeirra fari að morgni eða komi að kvöldi, hvað þá með farangur sem kann að vigta nokkuð og vera óhöndugt að dragnast með lengri leiðir í hálku og snjó. Og nú stendur enn frekar til að gera þessum íbúum Reykjavíkur, og þeim sem þá aðstoða, erfitt fyrir.

Bann við sérútbúnum jeppabifreiðum með yfir 36” dekk í miðborginni

Þótt margt sé við tillögur stýrihóps um akstur hópbifreiða með ferðamenn í miðborginni að athuga þá er það ein tillaga sem FETAR gerir alvarlegar athugasemdir við, en það er að jeppabifreiðum með yfir 36” dekk verði bannað að aka á ákveðnum svæðum í miðborginni.

Í stuttu máli þá heldur sú tillaga engu vatni í neinu samhengi, hvorki í rökrænu samhengi né hvað almennt jafnræði varðar. Jafnframt má benda meðlimum stýrihópsins á að 36” dekk sjást varla á nokkrum jeppabifreiðum í dag, sérstaklega ekki á jeppabifreiðum í farþegaflutningum. Ólíklegt er að sú dekkjastærð eigi við í því tilviki þar sem verið er að fjalla um akstur með ferðamenn, og því virðist sem stýrihópurinn hafi freistast til að teygja sig lengra en erindi hans nær hvað þetta varðar. Menn geta spurt sig hvað skíni þar í gegn?

Athugsemdir FETAR varðandi bann við sérútbúnum jeppabifreiðum með yfir 36” dekk í miðborginni:

1.

Það er erfitt að sjá hvernig það samræmist jafnræðisviðmiðum að banna akstur jeppa eftir dekkjastærð en óháð raunstærð eða -þyngd ökutækisins sjálfs. Fjölmargar bíltegundir, með minni dekk, eru fyrirferðarmeiri á vegum og taka meira vegpláss en breyttar jeppabifreiðar. Hver er í raun röksemdin fyrir þessari tillögu og banni? Tillöguhöfundar virðast altént ekki treysta sér til að bera nein rök fram í tillögugerð sinni um bann við umferð breyttra bifreiða um miðborgina.

Til samanburðar fylgja hér mál á 40” breyttum Toyota Land Cruiser 150 2017 árgerð og óbreyttum Range Rover árgerð 2012-2017:

Lengd í cm.

Breidd í cm.

Toyota Land Cruiser 150, 2017 árg. — 40” breyttur: 478 x 205

Range Rover: 499 x 207

Ranger Rover er því stærri sem nemur:

21 x 2

2.

Á morgnana er heimilt að fara með vörur í verslanir, veitingahús og á hótel í miðborginni. Fjölmargir sendibílar af öllum stærðum og gerðum keyra þá um miðborgina, innan þess svæðis sem fyrirhugað er að banna jeppabifreiðum með yfir 36” dekk að keyra um. Minna fer fyrir flestum breyttum jeppabifreiðum en þessum sendibílum. Ójafnræðið sem fylgir þessu banni er því æpandi.

3.

Ferðir sem seldar eru með breyttum jeppabifreiðum eru kostnaðarsamar vegna hærri rekstrarkostnaðar bifreiðana, en bifreiðarnar gefa kaupendum þjónustunnar jafnframt kost á að komast á fáfarna staði og upplifa stórbrotna og ósnerta náttúru. Ferðir þessar eru því seldar sem lúxusferðamáti og það mun vera afskaplega afkáralegt að biðja fólk sem kaupir slíkar ferðir um að draga töskur sínar á morgnana í hvaða veðri og skilyrðum sem er út á yfirfull rútustæði. Slíkt er einfaldlega ekki í boði. Líklegt er því að fyrirtæki sem slíkar ferðir selja verði að hafa aðrar óbreyttar bifreiðar til ráðstöfunar, t.d. Range Rover, til að sækja fólkið. Fólkið verður svo keyrt út fyrir miðbæinn og skipt um bifreið. Í raun tekur slík Range Rover bifreið litlu minna vegpláss en breytt jeppabifreið. Þetta fyrirkomulag mun að þessu leyti ekki hafa í för með sér minni umferð um miðborgina, heldur einungis óhagræði, aukaskutl, aukabifreið og aukakostnað. Það þýðir ekki að ímynda sér að bannreglur leysi öll mál, slíkar strútsaðferðir virka sjaldnast.

4.

Þótt að safnstæðum verði fjölgað í bænum er líklegt að á morgnana þegar verið er að ná í flesta farþega verði örtröð á þeim, ekki pláss fyrir allar rútur og mikil hætta á ruglingi meðal farþega í hvaða rútur þeir eigi að fara. Það mun taka tíma að safna öllum farþegum saman, ef einhverja vantar mun þurfa að athuga með þá á hóteli, ganga þangað eða hringja. Allt mun þetta taka tíma, eins og það ávallt gerir. Það er ekki vitlegt að breyttum ferðaþjónustubifreiðum sem að auðvelt er að aka um miðborgina og taka ekki meira vegpláss en fjölmargar óbreyttar bifreiðar verði beint á sömu safnstæði og rúturnar, einungis til að vera fyrir þeim á háannatíma. Jafnframt er augljóst að slysahætta mun aukast.

5.

Er safnstæðum verður fjölgað líkt og til stendur þá mun umferð til þeirra eftir þeim götum er að þeim liggja, og umstang og hávaði frá rútubifreiðum, aukast til mikilla muna í kringum þau svæði. Við þessar götur og í nágrenni fyrirhugaðra safnstæða búa íbúar. Það er ekki skynsamlegt að breyttum ferðaþjónustubifreiðum, sem auðveldlega má keyra um miðborgina líkt og aðrar bifreiðar, verði einnig stefnt á þessi safnstæði. Vissulega fylgja umferð breyttra ferðaþjónustubifreiða umhverfishljóð, líkt og öllum bifreiðum, en það er þó skynsamlegra að það álag dreifist um miðborgina með annarri umferð, í stað þess að það bætist við allt það álag er fyrir verður á safnstæðunum.

Lokaorð

Það er skýlaus krafa FETAR að í ljósi þess sem reifað er að ofan verði breyting á vinnubrögðum Reykjavíkur hvað varðar stefnu borgarinnar í samgöngumálum nýjustu íbúa hennar, ferðamanna. Það er ákaflega mikilvægt borginni efnahagslega að ferðaþjónusta, ferðamenn og borgarbúar lifi í sátt og samlyndi. Til að svo sé þurfa allir að fá sitt pláss, og vera sýnd virðing. Lausnin getur ekki leynst í kreddufullum bönnum, torkennilegum og órökstuddum, heldur í gagnkvæmum skilningi á þeirri starfsemi sem fyrir hendi er í miðborginni og er borginni svo mikilvæg. Ef Reykjavíkurborg hefði frá upphafi sinnt því hlutverki sínu að sjá til þess að hægt væri að þjónusta hina nýju íbúa Reykjavíkur, sækja þá á heimili sín og keyra þangað aftur með sómasamlegum hætti, hefði aldrei þurft að koma til árekstra milli þeirra sem ferðamönnunum þjóna og rótgróinna íbúa miðborgarinnar. Þá hefðu heldur aldrei órökstuddar furðuhugmyndir um bann við því sem engum er armæða af farið á flug. Vonandi verður hér bæting á hjá stjórnendum Reykjavíkurborgar.

VSK breyting

  • November 11, 2015May 16, 2019
  • by svenni2019

Ágætu félagar

Miðvikudagskvöldið 11. nóvember n.k. mun Soffía Björgvinsdóttir frá KPMG, vera með kynningu á þeim breytingum sem verða á virðisaukaskatti um næstu áramót, fyrir okkur í FETAR.  Hún mun sérstaklega fara yfir það sem snýr að farþegaflutningum.

Kynningin er aðeins fyrir félaga í FETAR og þeim að kostnaðarlausu.  Kaffiveitingar verða á kynningunni.

Búnaðarlisti FETAR

  • January 26, 2015May 16, 2019
  • by svenni2019

Á félagsfundi FETAR sem haldinn var í nóvember s.l. var settur upp listi yfir þann búnað sem félagsmenn hafa eða vilja hafa í sínum bílum. Hugmyndin er að til sé einfaldur en ítarlegur listi yfir það sem nauðsynlegt er að sé í bílum félagsmanna. Stjórn fór yfir þau atriðið sem komu fram á fundinum og er niðurstaðan meðfylgjandi listi. Við hvetjum alla félagsmenn til að yfirfara bíla sína samkvæmt þessu.

  • GPS tæki
  • VHF talstöð
  • Teppi/álteppi
  • Farsími
  • Leiðsögumannakerfi (allavega í stærri bílum)
  • Loftdæla
  • Loftmælir
  • Vasaljós + aukarafhlöður
  • Skófla
  • Teygjuspotti / tóg
  • Tjakkur / drullutjakkur
  • Startkaplar
  • Dekkjaviðgerðasett
  • Þurrkpappír
  • Verkjalyf í sjúkrakassa
  • Dráttaraugu / krækja
  • Verkfærasett
Pelastikk
FETAR © 2019
Theme by Colorlib Powered by WordPress